Uppeldi til ábyrgðar

Þessi síða er í vinnslu

Haustið 2021 hóf skólinn innleiðingu á uppeldisstefnu sem nefnd er Uppeldi til ábyrgðar. Meginatriðið er að kenna nemendum sjálfsaga, sjálfstjórn og ýta undir sjálfstraust. Það er í lagi að gera mistök en spurning hvernig við vinnum með það. Unnið er með þarfir og hlutverk  hvers og eins í skólanum. Gerðir eru sáttmálar í bekkjum og í starfsmannahópnum um það hvað við viljum leggja áherslu á í samskiptum.

Uppbygging sjálfsaga leggur áherslu á jákvæð samskipti fremur en reglur, á ábyrgð fremur en blinda hlýðni og á virðingu fremur en stjörnugjöf. Treyst er á hæfileikann til sjálfstjórnar og að hver og einn geti hugsað áður en hann framkvæmir og brugðist rétt við aðstæðum.

Uppbygging sjálfsaga hvetur hvern og einn til að taka ábyrgð á eigin orðum og gerðum. Aðferðin nýtist við bekkjarstjórnun þar sem allir fá að vaxa og njóta sín. Þetta er aðferð í samskiptum og aðferð við að ná jafnvægi og innri styrk eftir að hafa beitt samferðamenn sína rangindum eða lent upp á kant við þá. Leitast er við að ná samstöðu um lífsgildi til að hafa að leiðarljósi og fylgja þeim síðan eftir með fáum skýrum reglum.

Spurt er bæði hvernig við viljum vera og hvað við þurfum að gera til að ná eigin markmiðum í sátt og samlyndi við samferðamenn.

Skýr mörk

Við í Engidalsskóla erum ekki með eiginlegar skólareglur en fari nemendur yfir skilgreind skýr mörk er gripið inn í og nemendum er þá vísað til skólastjórnanda sem ákveður næstu skref. Foreldrar eru boðaðir til fundar með nemendum og áætlun gerð um það sem betur má fara. Mikilvægt er að allir séu meðvitaðir um þetta.

Í Engidalsskóla viljum við:

  • Ekkert ofbeldi hvorki líkamlegt né andlegt

  • Engin barefli né önnur vopn

  • Engin ávana- eða fíkniefni þar með talið áfengi, tóbak og rafrettur

  • Engar alvarlegar ögranir eða hótanir

  • Engin skemmdarverk

  • Enga áhættuhegðun

  • Engan þjófnað


Engidalsskóli | Breiðvangur 42, 220 Hafnarfjörður
Sími 555 - 4433 | Netfang engidalsskoli@engidalsskoli.is