Símalaus Víðistaðaskóli

19.2.2019

Kæru foreldrar/forráðamenn
Við í Víðistaðaskóla höfum ákveðið að frá og með næsta mánudegi 25. febrúar 2019 verður óheimilt að nota farsíma á skólatíma nemenda í 1. – 10. bekk. Þetta þýðir að ekki má nota síma fyrir fyrstu kennslustund dagsins, í frímínútum, hádegishléi, á leið í eða úr íþróttum, í kennslustundum, eftir síðustu kennslustund og í frístundaheimilinu. Ef nemendur koma með farsíma í skólann eiga þeir hvorki að sjást né heyrast í þeim. Það á að vera slökkt á þeim og þeir ofan í tösku eða í læstum skáp nemenda (á við unglingadeild). Fari nemandi ekki eftir reglunni í skólanum verður unnið skv. agaferli skólans. Ef foreldrar þurfa að ná sambandi við börnin sín á skólatíma á að gera það í gegnum skrifstofu skólans. Foreldrar barna í frístundaheimili hafa samband við frístundaheimilið ef það þarf að koma skilaboðum til barnanna. Nemendur hafa aðgang að snjalltækjum í skólanum á skólatíma og eiga því ekki að nota eigin snjalltæki í skólanum. Nemendur á öllum stigum hafa tækifæri til að nota spjaldtölvur í námi. Þessi regla er skv. skólareglum Víðistaðaskóla og hefur verið í gildi í nokkur ár og því er engin breyting á skólareglunum. Litið hefur verið framhjá símanotkun á unglingastigi undanfarin ár því nemendur hafa stundum fengið að nýta símana í námi en nú þarf þess ekki lengur með tilkomu spjaldtölvanna. Kennarar og stjórnendur hafa rætt við nemendur um þessa breytingu en við teljum hana vera til hagsbóta fyrir nemendur og skólastarfið. Við óskum eftir góðu samstarfi við ykkur kæru foreldrar/forráðamenn vegna þessara breytinga. Með virðingu og vinsemd Hrönn Bergþórsdóttir, skólastjóri Víðistaðaskóla


Engidalsskóli | Breiðvangur 42, 220 Hafnarfjörður
Sími 555 - 4433 | Netfang engidalsskoli@engidalsskoli.is