Saga skólans

Engidalsskóli var stofnaður árið 1978 og er staðsettur í einstöku umhverfi Hafnarfjarðar. Skólinn kúrir í hrauninu, umvafinn fjölbreyttri náttúru með fallegum svæðum sem henta vel til útivistar. Skólinn er grunnskóli með bekkjardeildir frá 1. – 7. bekk. Hjördís Guðbjörnsdóttir var fyrsti skólastjóri Engidalsskóla og starfaði um langt árabil en Auður Hrólfsdóttir tók við af henni og var skólastjóri fram til þess að skólinn var sameinaður Víðistaðarskóla árið 2010. Hrönn Bergþórsdóttir núverandi skólastjóri Víðistaðaskóla stýrði skólanum frá árinu 2013-2020. Skólinn endurheimti sjálfstæði sitt haustið 2020 og er skólastjóri í dag Margrét Halldórsdóttir.

Skólinn starfar eins og lög gera ráð fyrir frá ágúst til júní. Skólanum er skipt í tvö stig, yngsta stig og miðstig. Skólinn er teymiskennslu skóli og er einn bekkur í hverjum árgangi með mismarga kennara. Við skólann er starfrækt frístundaheimili fyrir nemendur í 1. – 4. bekk, Álfakoti.

Í stjórnendateymi skólans er skólastjóri, deildarstjóri stigs, deildarstjóri stoðþjónustu, deildarstjóri UT og deildarstjóri tómstundastarfs. Við skólann starfa einnig námsráðgjafar, sálfræðingur, þroskaþjálfar, hjúkrunarfræðingar ásamt skóla- og frístundaliðum.

Leiðarljós Engidalsskóla eru: Ábyrgð – Virðing – Vellíðan og er allt starf skólans í anda þeirra. Hlutverk grunnskólans er ákvarðað í lögum um grunnskóla en þar segir í 2. grein: „Hlutverk grunnskólans, í samvinnu við heimilin, er að búa nemendur undir líf og starf í lýðræðisþjóðfélagi sem er í sífelldri þróun”. Í Engidalsskóla er lögð áhersla á að undirbúa nemendur undir framtíðina á lýðræðislegan hátt. Lögð er áhersla á að rækta með nemendum umburðarlyndi, víðsýni og ábyrgð ásamt virðingu fyrir sjálfum sér og umhverfi sínu. Með því er lagður grundvöllur að sjálfstæðri hugsun nemenda og hæfni þeirra til samstarfs við aðra. Þá er lögð áhersla á að veita nemendum tækifæri til að afla sér þekkingar með nútímatækni og hæfni til að nýta hana sem ýtir undir stöðuga viðleitni til menntunar og þroska svo nemendur geti nýtt þau tækifæri sem lífið býður upp á.


Engidalsskóli | Breiðvangur 42, 220 Hafnarfjörður
Sími 555 - 4433 | Netfang engidalsskoli@engidalsskoli.is