Bókasafn Engidalsskóla

Bókasafn er starfrækt í Engidalsskóla. Hlutverk þess er að styðja við kennslu og námsmarkmið sem sett eru fram í námskrá skólans. Það á  að vera lestrarhvetjandi fyrir nemendur og gera lestur að ánægjulegri upplifun. Þar eiga nemendur að fá tækifæri til að afla sér upplýsinga og nýta þær til þekkingar, skilnings og sköpunar. Bókasafnið á að vera lifandi staður til fræðslu og upplýsingaöflunar. Allir nemendur og starfsmenn skólans fá útlánakort sem skólasafnið gefur út og geymir.

Safnkostur er fjölbreyttur og má þar finna bæði fræðslu- og afþreyingarefni. Þar er auk bóka, m.a. tímarit, bæklingar, myndefni og spil. Söfnin veita nemendum og starfsfólki greiðan aðgang að upplýsingum og heimildum. Gagnaskrá safnanna er í Gegni, sem er sameiginlegt bókasafnskerfi fyrir landið allt, sem Landskerfi bókasafna hf. sér um. Í Gegni er hægt að skoða hvað söfnin hafa upp á að bjóða. Þar er möguleiki að leita heimilda eftir hugtökum og atriðisorðum sjá https://leitir.is

Allir nemendur skólans eiga erindi á safnið á skólaárinu. Þar fá þeir afþreyingarefni og ýmis námsgögn og eru t.d. námsbækur unglingadeildar skráðar í Gegni og lánaðar frá safninu. Söfnin taka þátt í ýmsum lestrarhvetjandi- og heimildaverkefnum og standa fyrir höfunda- og bókakynningum yfir veturinn. Við alla verkefna- og hópvinnu leitast bókasafnsfræðingur við að eiga gott samstarf við umsjónar- og tölvukennara skólans.

Safnstjóri safnsins er Guðný Birna Rosenkjær.


Engidalsskóli | Breiðvangur 42, 220 Hafnarfjörður
Sími 555 - 4433 | Netfang engidalsskoli@engidalsskoli.is