Stefna skólans

Gildi Engidalsskóla eru leiðarljós skólastarfsins: Ábyrgð – Virðing – Vellíðan og endurspeglast þau í öllu starfi skólans. Hlutverk grunnskólans er ákvarðað í lögum um grunnskóla en þar segir í 2. grein: „Hlutverk grunnskólans, í samvinnu við heimilin, er að búa nemendur undir líf og starf í lýðræðisþjóðfélagi sem er í sífelldri þróun”. Í Engidalsskóla er lögð áhersla á að undirbúa nemendur undir framtíðina á lýðræðislegan hátt. Við ræktum með nemendum umburðarlyndi, vináttu, víðsýni og ábyrgð ásamt virðingu fyrir sjálfum sér, öðrum og umhverfi sínu. Með því teljum við að lagður sé grundvöllur að sjálfstæðri hugsun nemenda og hæfni þeirra til samstarfs við aðra. Við viljum veita þeim tækifæri til að afla sér þekkingar og leikni og temja sér vinnubrögð og reglusemi sem stuðlar að stöðugri viðleitni til menntunar og þroska svo nemendur geti nýtt þau tækifæri sem lífið býður upp á.

Í Engidalsskóla er nemandinn í forgrunni í öllu starfi skólans. Áhersla er á almenna menntun sem stuðlar að alhliða þroska nemenda og undirbúning undir þátttöku í atvinnulífinu eða til frekara náms. Leitað er allra leiða til að koma til móts við ólíkar þarfir nemenda m.a. með fjölbreyttum kennsluháttum og öflugu stoðkerfi. Til þess að stuðla að þessu er lögð áhersla á hvetjandi námsumhverfi og að nemendur fái að njóta sín í námi og félagslífi. Mikil rækt er lögð í listgreinar og sköpun.

Frá haustinu 2021 hefur verið unnið með agastefnuna Uppeldi til ábyrgðar í Engidalsskóla. Lögðer áhersla á jákvæð samskipti, sjálfsstjórn og að einstaklingurinn taki ábyrgð á eigin orðum og gerðum. Gerður er bekkjarsáttmáli með hverjum árgang þar sem nemendur búa til sáttmála með þeim lífsgildum sem skiptir nemendurna mestu máli og daglegu starfi og farið ítarleg í hlutverk hvers og eins.

Engidalsskóli leggur áherslu á að nemendur geri sér grein fyrir gildi umhverfismenntar og móti sér lífsstíl í anda hennar. Áhersla er lögð á að nemendur verði meðvitaðir um mikilvægi samspils náttúru og umhverfis. Lögð er áhersla á að nemendur kynnist nánasta umhverfi, læri að bera virðingu fyrir náttúrunni og þroski með sér alþjóðavitund um umhverfismál. Í Engidalsskóla er lögð áhersla á að nemendur taki virkan þátt í að flokka úrgang til endurvinnslu og endurnýtingar og virði auðlindir jarðarinnar. Nýttar eru fjölbreyttar leiðir til þekkingaröflunar, má þar nefna útikennslu, umhverfisfræðslu og upplýsinga- og tæknimennt.

Nemendur eru hvattir til sjálfstæðra vinnubragða, samvinnu, að sýna frumkvæði og beita gagnrýnni hugsun. Í skólanum eru viðhafðir fjölbreyttir kennsluhættir, sjálfstæð vinna, samvinna, innlagnir, upplýsingaöflun, framsýni í upplýsinga- og tæknimennt sem tæki til náms. Stefnt er að nýtingu nýjustu tækni á hverjum tíma í kennslunni svo sem google classroom og spegluð kennsla. Þetta er gert til að auka námsvitund og víðsýni nemenda og sjálfstæð vinnubrögð.

Í Engidalsskóla er metnaður lagður í list- og verkgreinar. List og verkgreinar eru kenndar í smiðjum. Að auki fá nemendur kennslu í tónmennt og syngja vikulega saman í samsöng. Nemendur læra framsögn og taka þátt í Litlu og stóru upplestrarkeppninni, þeir koma reglulega fram á sal skólans með skemmtanir þar sem foreldrum og öðrum skólafélögum er boðið.

Helstu áherslur skólastarfsins tengjast tónlist og leiklist, umburðarlyndi fyrir fjölbreytileika, stærðfræði og rökhugsun, læsi og námsvitund, umhverfismennt og útikennslu.

Í skólanum er lögð áhersla á vellíðan barna, gleði og leiki, tengsl við náttúru, menningu og atvinnulíf í nánasta umhverfi skólans. Forsenda árangurs í skólastarfi er að nemendum líði vel og farsælt samstarf heimila og skóla þar sem sömu gildi og væntingar ríki á báðum stöðum.


Engidalsskóli | Breiðvangur 42, 220 Hafnarfjörður
Sími 555 - 4433 | Netfang engidalsskoli@engidalsskoli.is