Mat á skólastarfi

Í lögum um grunnskóla nr. 91/2008 er kveðið á um sjálfsmat skóla. Samkvæmt þessum lögum velur skólinn sjálfur aðferðir við matið. Skólastjóri sem er faglegur forystumaður skólans ber m.a. ábyrgð á því að virkja þátttakendur og ná sem breiðastri samstöðu um matið. Á fimm ára fresti gerir menntamálaráðuneytið úttekt á þeim aðferðum sem skólarnir nota. Til að mat teljist uppfylla viðmið laga þarf það að vera formlegt, altækt, áreiðanlegt, samstarfs-, umbóta-, árangurs-, stofnana- og einstaklingsmiðað, lýsandi, greinandi og opinbert.

Mat á skólastarfi er stöðug viðleitni til að gera góðan skóla enn betri með mælingum á starfinu, endurskoðun og umbótum. Mat á skólastarfi er verkfæri til að bæta gæði náms og þeirrar þjónustu sem vilji er til að veita nemendum og aðstandendum þeirra. Umsjón og framkvæmd á innra mati á skólastarfi í Víðistaðaskóla er í höndum matsteymis skólans sem skipað er skólastjóra og fulltrúum þeirra sem að skólastarfinu koma. Markmiðin í skólastarfinu, bæði aðalnámskrá og skólanámskrá, og aðstæður skólans á hverjum tíma eru undirstaða matsins. Matsáætlun skólans lýsir hvaða þættir eru metnir hverju sinni og hvaða aðferðum er beitt. Matsáætlun er endurskoðuð árlega.

Við mat á skólastarfi í Engidalsskóla hefur verið leitað til fyrirtækisins Skólapúls frá árinu 2012. Á vegum Skólapúlsins eru gerðar rafrænar viðhorfskannanir mánaðarlega þar sem nemendur í 6.-7. bekk svarar spurningum er varða líðan, námsaðstæður og fleira er lýtur að skólastarfinu í heild. Einnig er nemendum gefið tækifæri til að tjá sig um skólastarfið með opnum spurningum. Annað hvert ár svar nemendur í 2.-5. bekk stuttri könnun sambærilegri, nema styttri, og eldri nemendur. Í lok vetrar hafa allir nemendur í fyrrgreindum árgöngum svarað sömu spurningum og þá liggur niðurstaðan í heild fyrir. Í mars ár hvert er lögð fyrir starfsmannakönnun og foreldrakönnun annað hvert ár þar sem viðhorf foreldra og reynsla af starfi skólans kemur fram. Þannig er lögð áhersla á að allir hagsmunaaðilar að skólastarfinu hafi rödd. Skólapúlsinn er þó einungis einn liður í mati á skólastarfi i Engidalsskóla en að auki eru foreldrasamtöl, viðtöl við nemendur, námsmat, starfsmannasamtöl og fleira tekið með í innra mat skólans. Niðurstöður úr könnunum á mati á skólastarfinu eru kynntar reglulega á starfsmannafundum og unnið er með valda þætti þar sem úrbóta eða umræðna er talið þörf. Foreldrar fá kynningu á niðurstöðum nemendakannana og foreldrakönnunar á haustfundum árlega. Einnig eru niðurstöður nemenda-, starfsmanna- og foreldrakannana birtar á heimasíðu skólans að vori ár hvert.

Hafnarfjarðarbær er aðili að Skólavoginni sem er tengd Skólapúlsinum og hefur þannig yfirsýn yfir niðurstöður hjá skólum bæjarins. Aðili á vegum skólaskrifstofu Hafnarfjarðar hefur umsjón með Skólavoginni, vinnur úr niðurstöðum og kynnir þær fyrir fræðsluráði og gerir opinberar.

Markmið með mati á skólastarfi Engidalsskóla er:

§ Leita leiða til að bæta hæfni og námsárangur nemenda.

§ Bæta starfsaðstæður og stuðla að betri líðan og heilbrigði allra sem í skólanum starfa, nemenda og starfsmanna.

§ Stuðla að starfsþróun og þekkingu allra starfsmanna, skólastarfinu til hagsbóta.

§ Auka samstarf og samheldni aðila sem koma að skólastarfinu, nemenda, foreldra og starfsmanna.

§ Skapa aðstæður sem stuðla að jafnvægi á milli starfs og einkalífs starfsmanna.

§ Skapa frjóa umræðu og skoðanaskipti um skólastarfið innan sem utan skólans.

§ Tryggja upplýsingamiðlun um starfsemi skólans bæði innan sem utan skólans.

§ Stuðla að jákvæðri þróun og vexti skólans í takt við þjóðfélagið á hverjum tíma.

Hér má finna tengla á niðurstöður skólapúlsins.


Engidalsskóli | Breiðvangur 42, 220 Hafnarfjörður
Sími 555 - 4433 | Netfang engidalsskoli@engidalsskoli.is